Þessi pistill birtist fyrst á heilraedi.blogspot.com 8. nóvember 2010

Þrír meginflokkar hreyfingar

Hreyfing getur verið margvísleg. Við getum farið í ræktina og lyft lóðum, eða hlaupið á bretti og hjólað á þrekhjóli. Við getum notað rimlana til að teygja líkamann eða lagst á dýnu og gert magaæfingar. Það er líka hægt að fara í tíma í þolfimi, jóga, krossfit eða öðru slíku. Sumir fara á dansnámskeið eða stunda fjallgöngur, skokka úti eða hjóla í vinnuna. Aðrir fara gangandi út í búð og taka stigann í staðinn fyrir lyftuna. Margir stunda einhverja blöndu af þessu eða taka tímabil, lyfta á veturna en fara í fjallgöngur á sumrin. Svo eru þeir sem prófa nýja tegund hreyfingar á hverju ári, til að fá tilbreytinguna.

Þolþjálfun

Til eru þrjár megingerðir hreyfingar, sem hver hefur sína kosti fyrir heilsuna. Þolþjálfun er öll þjálfun sem gerir okkur móð, t.d. að hlaupa, hjóla, skokka, ganga rösklega, synda eða stunda þolfimi. Þolþjálfun er góð fyrir hjartað og æðakerfið og minnkar þannig hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Hún er líka góð fyrir lungu og berkjur og getur hindrað þróun lungnasjúkdóma. Svo bætir hún skap og andlega líðan og getur þannig hjálpað þeim sem eiga við kvíða eða þunglyndi að stríða. Hún styrkir beinin og vöðvana sem við notum við æfinguna, sem minnkar líkur á beinþynningu. Sömuleiðis bætir hún insúlínnæmið og minnkar þannig hættu á fullorðinssykursýki (sykursýki II).

Styrktarþjálfun

Styrktarþjálfun byggir á því að lyfta lóðum eða að lyfta sínum eigin líkama, t.d. með armbeygjum eða klassískum maga- og bakæfingum. Styrktarþjálfun byggir upp vöðvana og beinin, svo við þolum betur líkamlegt álag í vinnu og frístundum. Að sitja við tölvu alla daga er ótrúlega mikið álag fyrir axlir, olnboga og úlnliði. Styrktarþjálfun smyr liðamótin og getur hindrað vöðvabólgu og bólgur í sinafestum. Eins verðum við betur undir það búin að mæta álagi í frístundum eins og að bera húsgögn eða mála vegg, ef vöðvar og bein eru sterk. Styrktarþjálfun er eitt það mikilvægasta sem við getum gert til að hindra beinþynningu.

Jafnvægisþjálfun

Jafnvægisþjálfun og teygjur fáum við í jóga, fimleikum, listdansi og þegar við æfum okkur að standa á einum fæti eða á tám. Oft eru í líkamsræktarsölum boltar og skífulaga bretti með hálfkúlu undir, sem eru notuð til að þjálfa jafnvægið. Teygjur eru oft stundaðar í kjölfar styrktaræfinga og þolþjálfunar til að teygja á vöðvum sem hafa verið undir miklu álagi á æfingunni. Það er mikilvægt að þjálfa jafnvægið svo við týnum því ekki niður með aldrinum og verðum dettin. Teygjur viðhalda hreyfigetunni og auka liðleika, svo auðveldara verður að teygja sig og beygja á alla kanta. Ennfremur hindra þær að vöðvarnir styttist með tímanum, sem getur gerst eftir langar setur við tölvu eða yfir bókum. Teygjur lina bólgur í vöðvum og sinafestum, og eru þannig mikilvægur hluti af verkjameðferð.

Alls konar hreyfing

Hreyfing er eitt það helsta sem við getum gert til að bæta lífsgæði okkar. Best er að stunda fjölbreytta hreyfingu sem innifelur allt þrennt, þolþjálfun, styrktarþjálfun og jafnvægisþjálfun/teygjur. Mikilvægast er samt að hver og einn finni þá hreyfingu sem honum/henni finnst skemmtileg og gefandi.

Heimild: McArdle, Katch and Katch. Exercise Physiology. Energy, nutrition and human performance. Williams and Wilkins, 1996.