Anna Ragna útskrifaðist sem matvælafræðingur frá Háskóla Íslands (HÍ) vorið 1999, með áherslu á næringarfræði. Haustið 2000 var hún skiptinemi við Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn, þar sem hún lagði stund á nám í næringarfræði mannsins. Hún lauk doktorsprófi í heilbrigðisvísindum frá læknadeild HÍ þann 13. mars 2009. Íslenskur titill doktorsritgerðarinnar er: Ómega-3 fitusýrur í rauðfrumum barnshafandi kvenna. Tengsl við neyslu og útkomu meðgöngu. Fjórar vísindagreinar um niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í erlendum, ritrýndum tímaritum.

Meðfram doktorsnáminu sótti Anna Ragna námskeið í áreynslulífeðlisfræði við sjúkraþjálfunarskor HÍ, og kenndi verklegar æfingar í lífeðlisfræði vöðva, nýrna, öndunar og blóðþrýstings. Á síðustu árum hefur hún sótt fjölmörg námskeið á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands, meðal annars um átraskanir, hugræna atferlismeðferð, áhugahvetjandi samtöl, gjörhygli og jákvæða sálfræði. Anna Ragna fékk starfsleyfi sem næringarfræðingur frá Landlæknisembættinu í október 2011.

Áhugi Önnu Rögnu á heilsueflingu hófst þegar henni tókst að komast yfir síkvef, þráláta hálsbólgu og slappleika með bættu mataræði og aukinni hreyfingu. Geðrækt hefur lengi verið henni hugleikin, enda er andleg vellíðan grunnurinn að góðu lífi.