Þessi pistill birtist fyrst á heilraedi.blogspot.com 3. maí 2010
Ómega-3 fyrir allar konur á barneignaraldri
Íslensk börn fæðast óvenju þung borið saman við börn í flestum öðrum Evrópulöndum og flest eru þau sem betur fer hraust. Langt fram á 20. öldina einkenndist fæði Íslendinga af neyslu sjávarfangs og lýsis, sem er ríkt af fjölómettuðu ómega-3 fitusýrunni DHA. DHA gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þroska fósturs og fylgjan velur DHA úr blóði móðurinnar og flytur yfir til fóstursins. Mikið er af DHA í frumuhimnum í heilanum. Hún gerir himnurnar sveigjanlegri og tekur þátt í ýmissri starfsemi í frumunum. Fyrstu vikur meðgöngunnar skipta ekki síður máli fyrir þroska fósturs en seinni hluti meðgöngu. Það er því mikilvægt að konur á barneignaraldri hafi forða af ómega-3 fitusýrum þegar til getnaðar kemur.
Ómega-3, ekki bara á meðgöngu
Í doktorsrannsókn minni var fylgni milli neyslu ómega-3 fitusýra, lífshátta og fæðingarþyngdar könnuð meðal 549 þungaðra kvenna tvisvar á meðgöngu. Blóðsýni voru tekin úr 176 þessara kvenna, hlutur ómega-3 fitusýra í rauðum blóðkornum mældur og borinn saman við neyslu, lífshætti og fylgjuþyngd. Blóðsýni voru einnig tekin úr 45 óþunguðum konum á barneignaraldri, hlutur ómega-3 fitusýra mældur í rauðum blóðkornum og borinn saman við neyslu og lífshætti. Þetta var fylgnirannsókn sem ekki getur sýnt fram á orsakasamhengi, en sýnir hvaða þættir fylgjast að. Síðan er nauðsynlegt að gera íhlutandi rannsókn til að sýna fram á hvort um orsakasamhengi er að ræða.
Lýsi og líkamsrækt jákvæð, reykingar og áfengisneysla ekki
Rannsóknin sýndi jákvæða fylgni milli neyslu ómega-3 fitusýra og hluts þeirra í rauðum blóðkornum bæði meðal þungaðra og óþungaðra kvenna. Neysla lýsis í byrjun meðgöngu tengdist aukinni þyngd nýbura óháð meðgöngulengd. Reykingar og áfengisneysla tengdust aftur á móti minni fæðingarþyngd. Aukinn hlutur ómega-3 fitusýra í rauðum blóðkornum í byrjun meðgöngu tengdist léttari fylgju óháð fæðingarþyngdinni. Hlutur DHA var hærri í rauðum blóðkornum því lengra sem konurnar voru komnar á leið þegar þær hófu þátttöku í rannsókninni, óháð neyslu DHA. Reykingar tengdust lægri hlut DHA í rauðum blóðkornum á fyrri hluta meðgöngu, en neysla á léttum bjór auknum hlut DHA í rauðum blóðkornum á seinni hluta meðgöngu. Líkamsrækt og notkun getnaðarvarnarpillu tengdust auknum hlut DHA í rauðum blóðkornum óþungaðra kvenna óháð neyslu DHA.
Byrjun meðgöngunnar skiptir mestu máli
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að lýsisneysla í byrjun meðgöngu og góð staða ómega-3 fitusýra í rauðum blóðkornum tengist heilbrigðri aukningu í fæðingarþyngd og léttari fylgju. Há fæðingarþyngd og lág fylgjuþyngd hafa verið tengd minni hættu á háþrýstingi og hjarta- og æðasjúkdómum á fullorðinsárum, og ómega-3 fitusýrur gætu verið einn af þeim þáttum sem ákvarða langtímaheilsu einstaklingsins. Það er því mikilvægt að konur hugi að neyslu sjávarfangs eða lýsis í byrjun meðgöngunnar. Þó hlutur DHA aukist í rauðum blóðkornum eftir því sem líður á fyrri hluta meðgöngunnar óháð neyslu DHA, hafa lífshættir sín áhrif. Reykingar auka peroxun í líkamanum og tengjast bæði lægri hlut DHA í rauðfrumum og minni fæðingarþyngd. Þó neysla á léttum bjór auki hugsanlega nýmyndun DHA í líkamanum, ættu þungaðar konur að forðast neyslu hans, því áfengisneysla, jafnvel í litlu magni, tengdist lægri fæðingarþyngd afkvæmis. Óþungaðar konur sem voru á getnaðarvarnarpillunni höfðu hærri hlut DHA í rauðum blóðkornum en þær sem ekki voru á pillunni, og ýmislegt bendir til að östrógenið í pillunum hvetji nýmyndun DHA í líkamanum (nýmyndun DHA er þegar DHA er mynduð úr forveranum alfa-línólensýru). Við þjálfun er hugsanlegt að nýmyndun og/eða innsetning DHA í himnur rauðra blóðkorna aukist, og er þá líklega vörn líkamans gegn því að rauðu blóðkornin springi sem er fylgifiskur þjálfunar.
Konur hugi að mataræðinu áður en meðganga hefst
Ómega-3 fitusýrur eru lífsnauðsynlegar fitusýrur sem við verðum að fá úr fæðunni. Neysla ómega-3 fitusýra er mjög mikilvæg barnshafandi konum og konum á barneignaraldri, þar sem staða þeirra í byrjun meðgöngu virðist tengjast fæðingarþyngd og fylgjuþyngd. Heilbrigð aukning í fæðingarþyngd hefur verið tengd betri heilsu afkvæmisins síðar á ævinni.