Þessi pistill birtist fyrst á heilraedi.blogspot.com 8. janúar 2010
Hlustaðu á líkamann
Margir glíma við þann vanda að vera of þungir. Flestir halda að megrun sé rétta leiðin, og eru oft árum saman að prófa ýmsa matarkúra. Sumum þessara kúra fylgir þyngdartap, ef þeim er fylgt í ystu æsar, en um leið og kúrnum er lokið eru kílóin fljót að koma aftur.
Síðustu árin hafa komið fram kúrar sem eiga að breyta mataræðinu til frambúðar, til að tryggja það að kílóin komi ekki aftur. En flestir springa á limminu, halda ekki hið nýja mataræði út til lengdar, og þá er fljótt að fara í sama farið.
Það versta við þetta munstur er að einstaklingnum finnst honum hafa mistekist; hann sé einhvern veginn gallaður, að geta ekki breytt sjálfum sér. Þannig ala megrunarkúrarnir og mataræðiskúrarnir á sektarkennd hjá fjölmörgu fólki.
En að auka hreyfinguna?
Sumir halda að það sé auðveldara að ná stjórn á líkamsþyngdinni með því að auka hreyfinguna, en með því að breyta mataræðinu. En átak í ræktinni kostar líka sjálfsaga eins og mataræðiskúr, og margir eiga erfitt með að halda átakið út. Þeir springa á limminu í ræktinni, hætta að mæta, og allt fer í sama farið.
Með heilbrigðum lífsháttum getum við bætt heilsu okkar og líðan verulega, óháð því hvort líkamsþyngdin breytist eða ekki. Galdurinn er að elska sjálfan sig eins og maður er, elska líkamann sinn eins og hann lítur út. Ræktum með okkur kærleika í stað sektarkenndar. Temjum okkur að hlusta á líkamann. Hvernig líður okkur eftir máltíð? Er meltingin góð, líður okkur vel í höfði og liðamótum? Líður okkur raunverulega vel af því sem við borðum? Er þessi matur raunverulega að gera okkur gott?
Líður okkur raunverulega vel eftir tíma í ræktinni? Erum við að stunda þá líkamsrækt sem okkur finnst skemmtileg og gefandi? Það er hægt að gera margt annað en að kaupa kort í ræktinni. Það er hægt að synda, hjóla, fara í styttri eða lengri göngutúra. Það er hægt að stunda jóga eða fara á dansnámskeið. Og einn möguleikinn er að fara stigann í stað þess að taka lyftuna, leggja bílnum fjær vinnustaðnum eða fara gangandi út í búð.