Þessi pistill birtist fyrst á heilraedi.blogspot.com 23. september 2010

Er heilsa okkar á ábyrgð samfélagsins?

Ég fór um daginn á ráðstefnu þar sem Ástríður Stefánsdóttir, siðfræðingur við Háskóla Íslands, hélt erindi um offitu. Hún benti réttilega á að langtímaárangur offitumeðferðar er afskaplega lítill. Rannsóknir hafa sýnt að 95% þeirra sem tekst að grenna sig, eru komnir upp í fyrri þyngd innan 5 ára. Sumir gera endurteknar tilraunir og sveiflast þá mikið í þyngd, en enda ennþá þyngri en þeir voru í upphafi. Miklar sveiflur í líkamsþyngd hafa slæm áhrif á heilsuna, og ekki síður á sjálfsmynd og sjálfstraust einstaklingsins. Hann situr uppi með “sökina” á því hvernig komið er fyrir honum, hann sé bara svo “lélegur” að geta ekki grennt sig.

Samfélagslegt vandamál

Ástríður vill líta á offitu sem samfélagslegt fremur en persónulegt vandamál. Þannig sé offita ekki vandamál þess sem er of feitur, og það sé heldur ekki heilbrigðisstarfsfólks að lækna þá sem eru of feitir. Slík nálgun sé hreinlega ekki vænleg til árangurs, eins og dæmin sýna.

Það er rétt að samfélagsbreytingar síðustu áratuga hafa aukið kyrrsetu og framboð á næringarsnauðum og hitaeiningaríkum mat. Þessari þróun þarf að snúa við og gera fólki kleift að lifa heilbrigðu lífi. Þetta má gera með því að fjölga hjólreiðastígum og göngustígum; skattleggja óhollan mat, og/eða niðurgreiða hollan mat; bæta almenningssamgöngur, og þrengja að einkabílnum; bæta aðgengi að hollri fæðu og almenningsíþróttum; fjölga hreyfistundum í skólakerfinu; bjóða upp á hollari mat í mötuneytum í skólum og á vinnustöðum; gera börnum kleift að ganga eða hjóla í skólann; stytta vinnutíma, og/eða hafa hreyfistundir á vinnustöðum. Hvort þyngdartap fylgir í kjölfarið er aukaatriði í mínum huga. Bætt heilsa og líðan, bæði andlega og líkamlega, er það sem máli skiptir.

Samfélagsleg ábyrgð einkafyrirtækja

En það er ekki bara hið opinbera sem getur markað stefnu til að bæta heilsu almennings. Ég vil líka beina sjónum að einkafyrirtækjum. Það er þeim í hag að starfsfólkið sé ánægt og hraust og að viðskiptavinirnir lifi lengi við nógu góða heilsu til að nýta sér þjónustu fyrirtækisins. Ég kom um daginn í byggingavöruverslun. Ég var fljót að finna vöruna sem mig vantaði en þurfti að bíða einhverja stund við kassann. Ég var svöng og ekki vantaði að eitthvað ætilegt væri innan seilingar. Ónei, þarna var stór drykkjarvörukælir og enn stærri standur með fæðu á föstu formi. En þó ég færi marga hringi kringum standinn og grannskoðaði hverja einustu hillu í kælinum, fann ég ekkert sem talist gæti hollt. Enginn hreinn ávaxtasafi, ekkert sódavatn, hvorki hreint né bragðbætt. Engir ávextir, ekki einu sinni sæmilega hollt hafrakex. Nei, ég gat bara valið milli ótal tegunda af gosdrykkjum, sælgæti, kartöfluflögum og sætabrauði.

Hollusta við kassann!

Ef byggingavöruverslun vill bjóða upp á matvöru, ætti hún að minnsta kosti að bjóða upp á val, þannig að heilsumeðvitaður viðskiptavinur geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Og er það ekki eigendum byggingavöruverslunar í hag að viðskiptavinirnir hafi heilsu og orku til að nota verkfærin, mála eða setja saman hillur og smíða palla langt fram á elliár. Þeir geta stuðlað að því með meðvituðum innkaupum á hollustu til að stilla upp við kassann.

Á meðan við bíðum eftir aðgerðum í þágu lýðheilsu frá hendi opinberra og einkaaðila, megum við ekki gleyma því að við höfum val. Við getum valið að skilja bílinn eftir heima, þó betra strætókerfi og hjólastígar myndu auðvelda okkur það val. Og þó auglýsingasálfræðingar hafi hannað auglýsingar fyrir skyndibita og sælgæti með það fyrir augum að lokka okkur og laða, þá er valið eftir sem áður okkar. Við getum valið að kaupa og borða frekar ávexti og grænmeti, þó freistingarnar verði stöðugt á vegi okkar.