Þessi pistill birtist fyrst á heilraedi.blogspot.com 12. október 2010

Ofát, bakflæði og hósti

Flest höfum við borðað yfir okkur á jólunum og í stöku matarboði eða veislu. En sumir borða yfir sig í hverri máltíð. Maginn er þá troðfylltur svo myndast þrýstingur á opið efst í maganum, milli magans og vélindans. Hringvöðvinn þar getur með tímanum veikst og vélindabakflæði þróast. Þá sullast magasafi og jafnvel leifar magainnihalds upp í vélindað. Þetta skynjum við sem brjóstsviða (bruna eða sviðatilfinning undir bringubeini) eða nábít (súrt óbragð í munni eða koki). Vélindabakflæði getur líka valdið hósta, mæði og jafnvel astma. Hóstaköst eða andþyngsli í kjölfar máltíða, og mikil þörf fyrir að ræskja sig til að losna við berkjuslím, getur verið vísbending um vélindabakflæði.

Það þarf ekki að klára af disknum!

Það mikilvægasta til að komast út úr ofáti er að koma reglu á máltíðirnar og sleppa tökunum á hindurvitnum eins og þeirri að við verðum að klára af disknum. Hófleg þolþjálfun (hreyfing sem gerir okkur móð eins og rösk ganga, skokk og hjólreiðar) styrkir lungu, berkjur og vöðva. Djúpslökun og hugleiðsla eru góð leið til að efla tilfinningu okkar fyrir líkamanum og þörfum hans, svo við verðum meðvitaðri um svengd og seddu.

Átkastaröskun

Ofát er misalvarlegt en getur í sumum tilvikum flokkast sem átröskunin BED (binge eating disorder, átkastaröskun). Einstaklingar með BED taka endurtekin átköst, þar sem mikill matur er innbyrtur á stuttum tíma. Átköstin eru tekin í einrúmi, og mikil skömm fylgir í kjölfarið. Það sem greinir BED frá lotugræðgi (bulimiu) er að einstaklingar með BED losa sig ekki við matinn með uppköstum eða með notkun hægða- eða þvagræsilyfja.

Átkastaröskun er djúpstæður, tilfinningalegur vandi, sem krefst vinnu bæði með sjálfsmynd og líkamsvitund, auk þess sem taka þarf á matarvandanum sem slíkum.

Heimild, meðal annars TR DeMeester. Evolving concepts of reflux: The ups and downs of the LES. Can J Gastroenterol 2002;16(5):327-331.