Þessi pistill birtist fyrst á heilraedi.blogspot.com 31. október 2010
Þess vegna er megrun fitandi
Sem fullvaxnir einstaklingar höfum við hvert og eitt ákveðinn viðmiðunarpunkt í líkamsþyngd, sem kallaður er eiginleg þyngd. Eiginleg þyngd hvers og eins fer eftir hæð, beinabyggingu og arfgerð. Mannslíkaminn hefur gegnum aldir og árþúsund þróað með sér kerfi sem á að viðhalda okkar eiginlegu þyngd. Ef við förum undir hana, þá örvast hungurtilfinning og löngun í orkuríka fæðu. Ef við förum yfir hana, dofnar hungurtilfinningin og löngun í orkuríka fæðu minnkar. Mannskepnan hefur lengst af þurft að hafa fyrir því að ná sér í mat og halda lífi. Þess vegna er kerfið sem örvar hungurtilfinninguna mun öflugra en það sem letur hana. Líkaminn vill frekar að við séum yfir eiginlegu þyngdinni en undir henni.
Sveiflur í fæðuframboði
Í gegnum tíðina hafa árstíðir, veðurfar og náttúrulegar sveiflur gert að verkum að framboð á mat hefur verið mismikið. Það hafa skipst á tímar þar sem gnægð matar var að hafa, og tímar hungursneyðar eða baráttu um þá litlu fæðu sem til var. Það var því mikilvægt að líkami mannsins hefði orkuforðabúr, sem gengið væri á um vetur eða á tímum uppskerubrests. Þetta orkuforðabúr er fituvefurinn. Hann gegnir fleiri hlutverkum, t.d. einangrar hann okkur frá kulda, og svo myndar hann mjúkan púða utan um beinin og líffæri kviðarholsins sem ver okkur fyrir hnjaski. Þegar nóg er um orkuríka fæðu stækkar fituvefurinn, en þegar lítið er um fæðu göngum við á þennan forða, brennum fitunni. Fituvefurinn getur stækkað nánast óendanlega, en áður fyrr var afar óalgengt að mannskepnan hefði aðgang að svo mikilli og orkuríkri fæðu í svo langan tíma að líkaminn sýndi merki um offitu.
Meira hungur, minni brennsla
Þegar hungur sverfur að er hormónum seytt sem minnka orkunotkun líkamans til að spara þá orku sem við eigum í fituvefnum og fáum með fæðunni. Um leið er hungurtilfinningin örvuð, svo við verðum dugleg að afla okkur fæðu. Þegar aftur koma betri tímar með blóm í haga, er orkunotkunin eða brennslan áfram lág. Umframorkunni er þá breytt í fitu og geymd í forðabúrinu, fituvefnum. Eiginlega þyngdin getur líka hækkað, því líkaminn hefur fengið þau skilaboð að fæðuframboð sé stopult. Það borgi sig því að safna aukaforða. Líkaminn vill þannig undirbúa sig fyrir næstu hungursneyð. Ef blómatíminn verður nógu langur tekst líkamanum þetta ætlunarverk sitt og einstaklingurinn verður þyngri en hann var fyrir hungursneyðina.
Megrun er hungursneyð
Í samfélögum Vesturlanda í dag er framboð fæðu nánast óendanlegt, og ekki þarf að eyða orku í að hlaupa uppi bráð eða safna jurtum. Líkami okkar ætti því að fá stöðug skilaboð um að engin þörf sé á að safna forða. En þegar við förum í megrun skynjar líkaminn að nú sé hungursneyð. Hormónin fara á fullt, orkunotkun minnkar og hungur vex. Líkaminn sparar þá litlu orku sem við færum honum og æsir upp hungrið. Þegar við springum á limminu eða þegar megruninni lýkur veldur hungrið því að við borðum mikið og sækjum í orkuríka fæðu. Minni brennsla veldur því að stór hluti orkunnar er geymdur í forðabúrinu. Þess vegna fitnum við hratt þegar megrun lýkur og komumst fljótt upp í okkar fyrri þyngd. Auk þess hefur líkaminn fengið þau skilaboð að við búum við erfiðar aðstæður þar sem hungursneyðir geta orðið. Eiginleg þyngd okkar getur þess vegna hækkað. Líkaminn reynir sitt ítrasta til að komast upp í hina nýju eiginlegu þyngd, svo hann hafi aukaforða þegar til næstu megrunar kemur. Endurteknar megranir geta því valdið miklum sveiflum í líkamsþyngd og við endum alltaf enn þyngri en við vorum fyrir síðustu megrun. Það má því segja að megrun sé fitandi.
Heimild: Linda Bacon, PhD. Health at every size. The surprising truth about your weight. Benbella books, inc. 2008.