Þessi pistill birtist fyrst á heilraedi.blogspot.com 11. febrúar 2010

Hugarástand jógaiðkunar

Íslendingar hafa verið duglegir að stunda jóga síðustu ár. Jógakennarar segja gjarnan að jóga sé andleg iðkun ekki síður en líkamleg, og kannski miklu fremur. En hvað eiga þeir við með því?

Jóga byggir á því að teygja líkamann, og anda með teygjunni. Hvað er svona andlegt við það? Oft er slökun í lok jógatíma, jafnvel farið stuttlega í orkustöðvar líkamans, og í bestu tilvikum framkallað hugleiðsluástand. Þetta er vissulega andleg iðkun, en jógateygjurnar sjálfar eru líkamlegar, eða hvað?

Einbeiting og fordómaleysi

Ef kafað er ofan í jógaheimspekina, má fá annað sjónarhorn á þetta mál. Jóga er fyrst og fremst æfing í hugarástandi. Í hugarástandi jógaiðkunar er einbeitingin algjör og fordómaleysið líka. Þú einbeitir þér algjörlega að vöðvunum sem eru að vinna, og önduninni. Á sama tíma slakar þú eins vel og þú getur á öllum öðrum vöðvum líkamans. Til þess þarftu að hemja hugann, draga athyglina að líkama þínum.

Fordómaleysið snýst um að láta þér standa á sama um hina jógaiðkendurna í salnum. Láta það ekki skipta neinu máli hvernig þeir standa sig, hætta að bera þig saman við þá. Einnig er mikilvægt að vera fordómalaus gagnvart öllu því sem þú finnur innra með þér. Ef þú kemst ekki lengra í teygjunni í dag, þá ert þú í hinni fullkomnu stöðu fyrir þig. Ef þú finnur til sársauka í teygjunni, þá breytir þú stöðunni þar til sársaukinn er horfinn.

Fyrirgefning

Æfingin skapar meistarann og það á líka við um hugarástand jógaiðkunar. Það getur tekið marga mánuði eða ár að ná fullkominni einbeitingu. Og hér er fordómaleysið líka mikilvægt. Vertu fordómalaus þegar hugurinn hvarflar frá líkamanum og út í salinn, heim, í vinnuna eða þegar áhyggjurnar læðast aftan að þér. Ekki dæma þig fyrir einbeitingarskortinn, fyrirgefðu þér óróleikann umsvifalaust og leiddu svo hugann blíðlega aftur inn á við, að önduninni, að teygjunni.

Hugarástand jógaiðkunar má kristalla í setningunni “hlustaðu á líkamann, á hverju augnabliki, og hlýddu því sem líkaminn segir þér”.

Heimild: Marvin Levine. The positive psychology of buddhism and yoga. Lawrence Erlbaum Associates, Inc. 2000.