Þessi pistill birtist fyrst á heilraedi.blogspot.com 19. nóvember 2010
Þolþjálfun fyrir sálina
Það er fátt eins gott fyrir andlega heilsu okkar og útivist og hreyfing. Þolþjálfun er sú tegund hreyfingar sem mest áhrif hefur á andlega líðan. Þolþjálfun er öll hreyfing sem gerir okkur móð, eins og hlaup, hjólreiðar, rösk ganga, sund, skokk, fjallganga og dans. Slík áreynsla örvar drifkerfi líkamans með tilheyrandi aukningu á framleiðslu og seyti streituhormónsins adrenalíns og taugaboðefnisins noradrenalíns. Við það eykst blóðstreymi til útlima og húðar, tíðni og kraftur hjartsláttar örvast, sömuleiðis tíðni og dýpt öndunar, og blóðþrýstingurinn hækkar.
Aðlögun minnkar streituviðbrögð
Þetta skyldi maður ætla að yki streitu og andlega vanlíðan. En tvennt veldur því að svo er alls ekki. Í fyrsta lagi hefst flókið slökunar- og vellíðunarferli í heilanum til mótvægis við streituáhrifin eftir að áreynslan hefur staðið í ákveðinn tíma. Slökun og vellíðan er miðlað af mörgum hormónum og taugaboðefnum, til dæmis endorfíni, serótóníni og dópamíni. Í annan stað aðlagast líkaminn álaginu eftir því sem maður þjálfast með reglubundnum æfingum og áreynslu. Þannig að þó blóðþrýstingur aukist alltaf við áreynslu, þá eykst hann mun minna hjá vel þjálfuðum manni en hjá kyrrsetumanni sem skyndilega reynir á sig. Þar að auki veldur þjálfunin því að blóðþrýstingur í hvíld verður lægri en hjá kyrrsetumanninum. Það sama gildir um púlsinn (hjartsláttartíðnina). Hinn þjálfaði hefur lægri áreynslupúls og lægri hvíldarpúls en kyrrsetumaðurinn. Ástæðan er minna seyti streituhormónsins adrenalíns og taugaboðefnisins noradrenalíns hjá þjálfuðum manni en kyrrsetumanni hvort sem er við áreynslu eða í hvíld.
Þolþjálfun minnkar streitu
Þetta veldur því að það er streitulosandi að stunda þolþjálfun, og við verðum betur í stakk búin að mæta streitu og andlegu álagi. Þolþjálfun getur linað kvíða og mildað depurð þeirra þunglyndu. Þar að auki líður okkur betur líkamlega sem andlega þegar við komumst í betra form. Með auknu þreki og þoli verðum við sjálfsöruggari, og sjálfstraustið eflist.
Heimild: Meðal annars McArdle, Katch and Katch. Exercise Physiology. Energy, nutrition and human performance. Williams and Wilkins, 1996.