Þessi pistill birtist fyrst á heilraedi.blogspot.com 31. ágúst 2011
Skynsemin
Ég hef nokkrum sinnum áður talað um innri og ytri stýringu þegar kemur að mataræði og hreyfingu. En hvað með skynsemina, hvernig tengist hún þessum tveimur þáttum?
Þegar við beitum ytri stýringu við að næra okkur og hreyfa, förum við í blindni eftir skilaboðum úr umhverfinu. Ef skilaboðin koma frá auglýsingum um skyndibita og sjónvarpssápur hrakar heilsu okkar smám saman, þó við förum ekki að finna almennilega fyrir því fyrr en hátt á fertugsaldri. Þá bregður okkur í brún og við tökum mörg hver meðvitaða ákvörðun um að láta frekar stjórnast af heilsuskilaboðum úr umhverfinu. Skilaboðin eru oft þau að við eigum að neita okkur um allan sykur og hvítt hveiti, lifa jafnvel á hráfæði eða grænmetisfæði. Önnur algeng skilaboð eru að mæta þrisvar í viku í krossfit eða ketilbjölluþjálfun, nú eða hlaupa svo og svo marga kílómetra á viku. Það eru sett einhver markmið sem okkur er talið trú um að við eigum að ná, t.d. að komast niður í svokallaða kjörþyngd, fá sléttan maga, stærri vöðva eða komast hálft eða heilt maraþon. Og við reynum að fara eftir skilaboðunum til að ná markmiðinu.
Stálgreipin molnar, stjórnleysi tekur við
Það versta við svona átak er ef við hættum að hlusta á líkamann og tilfinningar okkar, og ef við hættum að beita skynseminni. Þá höldum við áfram átakinu ótrauð, þó við séum stöðugt svöng og dreymi fátt annað en mat; pínum okkur áfram þó harðsperrurnar séu orðnar að krónískum meiðslum; trúum því við séum að gera okkur gott þó líkaminn kvarti stöðugt með meltingartruflunum og þreytu. Þegar við erum komin í slíka mótsögn við líkamann, tilfinningarnar og skynsemina, er stutt í að við gefumst upp. Því miður er það ekki skynsemin sem nær yfirhöndinni þegar þar er komið sögu, heldur tilfinningarnar og líkamlegar hvatir og þarfir. Við brjótum allar reglurnar sem við settum okkur. Við hættum að mæta í ræktina þó við séum búin að borga fyrir allan veturinn, og borðum yfir okkur af öllu sem á bannlistanum var. Í kjölfarið fylgir samviskubit og sjálfsniðurrif. Okkur finnst við léleg að hafa gefist upp, okkur finnst við hafa misst alla stjórn á lífi okkar.
Vertu nú skynsöm, hvernig líður þér í raun?
Ég mæli frekar með innri stýringu. Innri stýring byggir á að hlusta á líkamann og þarfir hans. En hvað með skynsemina? Hvernig verður líf okkar ef við borðum alltaf það sem okkur langar í þá stundina, og hreyfum okkur bara þegar okkur langar til þess? Leggjumst við þá ekki bara í sófann með konfektkassa okkur við hlið? Skoðum þetta aðeins betur. Eftir tvo daga með konfektkassa í sófanum verðum við stirð í skrokknum og með magapínu. Þá er líkaminn að segja okkur að hlúa betur að okkur, með betri næringu og meiri hreyfingu. Skynsemin segir okkur það líka. Og við skulum ekki missa sjónar á skynseminni. Ef skynsemin er í takti við tilfinningarnar ber hún heilsuskilaboð sem við fáum úr umhverfinu saman við tilfinningar okkar og metur hvort skilaboðin séu skynsamleg, hvort við getum hugsað okkur að prófa að fara eftir þeim. Ef niðurstaðan er já, hefst reynslutími. Við prófum að gera litla breytingu á lífsstíl okkar. Eftir þennan reynslutíma metum við stöðuna á nýjan leik, berum hana saman við skynsemina og tilfinningar okkar. Virkuðu þessi skilaboð fyrir okkar líkama? Ef okkur líður betur en áður, höldum við áfram, og íhugum jafnvel að stíga annað skref, gera aðra litla breytingu.
Það er skynsamlegra að gera litla varanlega breytingu á lífi sínu, en að gera risaátak sem rennur í sandinn.