Þessi pistill birtist fyrst á heilraedi.blogspot.com 24. febrúar 2012
Orthorexia - réttfæðisárátta
Orthorexia nervosa er sjúkdómur sem hefur ekki enn verið viðurkenndur af alþjóðlegum samtökum geðlækna. Sumir sérfræðingar eru samt farnir að nota þessa skilgreiningu um fólk sem er heltekið þörf fyrir að borða “rétt”. Hvað einstaklingur með orthorexiu telur rétt að borða og hvað rangt er einstaklingsbundið, en oftar en ekki snýst það um að forðast aukefni, E-efni, verksmiðjuframleidd matvæli, sykur, fitu, kolvetni, allan eldaðan mat, kjöt, mjólkurvörur eða allt úr dýraríkinu. Munurinn á orthorexiu og anorexiu er að einstaklingur með orthorexiu hefur ekki stórkostlegar áhyggjur af líkamsþyngdinni, og er ekki í megrun. Matarreglurnar snúast ekki um magn, heldur gæði. Reglurnar eru mjög strangar og eru gjarnan rökstuddar með því að vilja borða “hreinan” mat, “náttúrulegan” mat, “ómengaðan” mat.
Sjálfskaparvíti
Einstaklingar með orthorexiu neita sér um mat, frekar en að láta nokkuð af bannlistanum inn fyrir sínar varir. Þeir eru margir vannærðir, og í undirþyngd, vegna þess að þeir ná ekki að fá öll þau næringarefni sem þeir þurfa, og nægar hitaeiningar, úr þeim mat sem er “leyfður”. Brjóti þeir reglurnar, með því að kyngja einni rúsínu óvart, eða með því að flippa og fá sér tvo hamborgara og hálfan lítra af kóki, finnst þeim þeir þurfa að refsa sér með því að fasta, fara á hreinsikúr, eða gera eitthvað annað sem “bætir fyrir brot þeirra”. Þráhyggja er afleiðing orthorexiu, fremur en orsök.
Náttúrulæknirinn Stephen Bratman lýsti sjúkdómnum fyrstur manna. Hann hefur sett fram tvær spurningar sem eiga að gefa fólki vísbendingu um hvort það sé haldið orthorexiu. Ég hef snarað þeim lauslega á íslensku hér:
Tvær spurningar
Spurning 1:
Er þér umhugaðra um að borða rétt, en að hafa ánægju af að borða?
Spurning 2:
Veldur mataræðið þér félagslegri einangrun?
Ef báðum spurningum er svarað játandi, er það vísbending um orthorexiu.
Á Wikipediu síðu um orthorexiu er annar listi með fleiri spurningum.
Spurningalisti af Wikipediu:
Eyðir þú meira en 3 klst á dag í að hugsa um hollan mat?
Finnst þér þú hafa fulla stjórn, ef þú borðar “rétt”?
Skipuleggur þú matseðil morgundagsins, í dag?
Hafa lífsgæði þín versnað með “réttara” mataræði?
Ertu orðin(n) strangari við þig?
Færðu meira sjálfstraust ef þú borðar hollan mat?
Líturðu niður á þá sem borða öðruvísi en þú?
Neitarðu þér um mat sem þér fannst áður vera góður, til þess að borða “rétt”?
Gerir mataræði þitt að verkum að þú átt erfitt með að borða annars staðar en heima hjá þér, sem hefur aftur valdið því að þú hefur fjarlægst vini og ættingja?
Finnurðu til sektarkenndar eða sjálfsásökunar ef þú brýtur mataræðisreglurnar?
Niðurstaða:
Ef þú svarar tveimur spurningum eða fleiri játandi, gætir þú verið með væga orthorexiu, segir á Wikipediusíðunni.
Það er vel hægt að vera heilsumeðvitaður án þess að vera haldinn sjúkdómnum orthorexiu. Heilsusamlegt mataræði þarf nefnilega ekki að innifela lista yfir “bannaðar” matartegundir (undantekningin eru þeir sem eru með sannanlegt fæðuofnæmi eða fæðuóþol). Það er sem betur fer hægt að upplifa aukna orku, fallegri húð, betri meltingu, meira jafnvægi og almennt bætta heilsu og vellíðan á fjölbreyttu, hófsömu og öfgalausu mataræði.