Þessi pistill birtist fyrst á heilraedi.blogspot.com 30. september 2012
Alþjóðlegi hjartadagurinn
Nú um helgina er alþjóðlegur hjartadagur, þ.e. dagur hjartaheilsu. Hjarta- og æðasjúkdómar eru ein algengasta dánarorsök hér á landi og í mörgum öðrum löndum. Á undanförnum áratugum hefur náðst töluverður árangur í baráttunni við þessa sjúkdóma, bæði á Íslandi og víðar. Þar kemur margt til. Reykingar eru einn stærsti áhættuþáttur kransæðasjúkdóma, og þær eru orðnar mun óalgengari en áður. Háþrýstingur og mikið LDL kólesteról í blóði eru einnig taldir áhættuþættir þessara sjúkdóma. Efri mörk blóðþrýstings hafa lækkað hjá meðal Íslendingnum, og jákvæðar breytingar hafa einnig orðið á kólesteróli í blóði landsmanna. Ástæðan er ekki bara betri lyf og læknismeðferð. Samkvæmt tveimur fyrirlestrum Vilmundar Guðnasonar, yfirlæknis Hjartaverndar, sem ég sótti á þessu og síðasta ári, byrjaði tíðni þessara sjúkdóma að lækka á Íslandi áður en ný blóðfitulækkandi og blóðþrýstingslækkandi lyf komu til sögunnar. Hann rekur þessa jákvæðu þróun til breytts neyslumunsturs þjóðarinnar, aðallega til minni neyslu á harðri fitu (mettaðri fitu). Léttmjólk kom á markaðinn um þetta leyti og fituminna viðbit líka. Einnig nefndi hann breytta kjötneyslu, þar sem vinsældir kjúklinga- og svínakjöts jukust á kostnað lamba- og nautakjöts. Rannsóknir Hjartaverndar eru hreinar faraldsfræðilegar rannsóknir, og ekki er útilokað að fylgni þessara neyslubreytinga við lækkaða sjúkdómstíðni sé tilviljun ein, og breyting í tíðni þessara sjúkdóma skýrist í raun af einhverju allt öðru.
Hvað kom í staðinn?
Þegar eitt form orkuefna minnkar í fæðinu, kemur annað orkuefni í staðinn, nema fólk léttist. Það er svo sannarlega ekki raunin hér á landi, þegar litið er til síðustu áratuganna. Hvað fór fólk að borða í staðinn fyrir hörðu fituna? Svarið er kolvetni. Hlutur kolvetna í fæði Íslendinga jókst, þegar hlutur fitu minnkaði. Þetta voru bæði fínunnin kolvetni (pasta, dísæt en fituskert jógúrt, sykraðir gosdrykkir), en einnig hollari kolvetni á formi grænmetis, ávaxta og grófra brauða.
Í Bandaríkjunum og fleiri vestrænum ríkjum hefur mikið verið rætt og ritað um áhrif fituneyslu á hjarta- og æðasjúkdóma. Fyrstu rannsóknir sem tengdu þetta tvennt saman á sjötta áratug síðustu aldar, bentu til þess að mettaða fitan væri slæm fyrir heilsu hjarta- og æðakerfisins, en ómettuð fita (mjúk fita, olíur) ekki. Þetta þótti of flókið fyrir almenning, og lýðheilsuskilaboðin urðu á þá leið að mæla með minni neyslu fitu almennt. Matvælaiðnaðurinn brást vel við og ótal fituskertar og fitusnauðar vörur komu á markað. Þetta átti í leiðinni að vera grennandi. En smám saman kom í ljós að hið gagnstæða gerðist, fólk fitnaði og hjartaheilsan versnaði, auk þess sem tíðni sykursýki af tegund 2 jókst hratt. Þegar farið var að rannsaka hvað fólk borðaði í staðinn fyrir fituna sem skorin var niður í fæðinu, kom í ljós að neysla sykurs og fínunninna kolvetna hafði aukist mikið.
Ofþyngd og sykursýki
Það sama gerðist hér á landi. Þjóðin þyngdist þegar neysla fitu minnkaði, þvert á allar spár, og tíðni sykursýki af tegund 2 jókst. En það er fleira sem skýrir aukna líkamsþyngd og sykursýki en bara kolvetnaneysla. Kyrrsetuvinna varð mun algengari, og minni þörf fyrir hreyfingu í daglega lífinu, eftir því sem bílaeign, fjarstýringar og lyftur urðu algengari, og fólk á öllum aldri fór að sitja við tölvu- eða sjónvarpsskjá tímunum saman. Sem betur fer fóru þó fleiri að stunda skipulagða hreyfingu í frítíma sínum.
Í dag ber vísindamönnum saman um að transfita sé sú sem er verst fyrir hjarta- og æðakerfið. Getur verið að tíðni hjarta- og æðasjúkdóma hafi aukist hér á landi um miðja síðustu öld, þegar húsmæður fóru að baka og steikja upp úr transfituríku smjörlíki í stað smjörs, og dregið hafi úr henni þegar jurtaolíurnar tóku við af smjörlíkinu á áttunda og níunda áratugnum? En transfita er í fleiru en bara smjörlíki. Bakarísvörur voru til skamms tíma ríkar af transfitu, sömuleiðis franskar kartöflur, kartöfluflögur og þess háttar. Hlutur transfitu í þessum vörum hefur sem betur fer farið minnkandi allra síðustu ár.
Bólga og oxun
Óhollusta mettaðrar fitu er umdeild. Það eru á lofti kenningar um að fita og kólesteról eigi greiða leið um blóðrásina, svo fremi sem bólgu í líkamanum er haldið niðri, og oxun í lágmarki. Sumar rannsóknir benda til þess að fínunnu kolvetnin skaði æðarnar og valdi bólgu og oxun, gegnum áhrif sín á hormónabúskapinn. Ómega-6 fitusýrur eru sannarlega bæði bólguhvetjandi og viðkvæmar fyrir oxun.
Það er að minnsta kosti ekki sama hvað kemur í staðinn fyrir mettaða fitu í fæðinu. Að skipta mettaðri fitu út fyrir transfitu er örugglega slæmt. Sé henni skipt út fyrir sykur, frúktósaríkt maíssíróp og önnur fínunnin kolvetni eru áhrifin líklega til hins verra. En að skipta mettaðri fitu út fyrir ómettaða fitu, sérstaklega einómettaða (ólífuolíu) og ómega-3 fitusýrur (feitan fisk, lýsi) ber öllum saman um að sé góður kostur fyrir heilsuna.
Holl fita
Fita er góður orkugjafi og byggingarefni allra frumuhimna í líkamanum. Ómega-3 og ómega-6 fitusýrur eru okkur lífsnauðsynlegar, því þær eru forverar ýmissa hormóna og gegna margvíslegu hlutverki í líkamanum. Það er í góðu lagi að borða hóflega af mjólkurvörum og kjöti, þó í þeim leynist mettuð fita, ekki síst ef við erum dugleg að hreyfa okkur. Ólífuolía, egg, avokadó og hnetur eru ríkar af einómettuðum fitusýrum. Ómega-6 fitusýrur eru í öllum jurtaolíum og í grænmeti. Ómega-3 fitusýrur er best að fá úr lýsi og feitum fiski, en minna virkt form hennar er einnig að finna í repjuolíu (canola), valhnetum, hörfræjum og örfáum öðrum jurtum.
Holl kolvetni
Kolvetni eru okkur nauðsynleg. Heilinn notar þau til sinnar starfsemi, og þau gefa orku fljótt sem er það sem vöðvarnir þurfa við líkamlega áreynslu. En það er betra að fá kolvetni úr höfrum, rúgi, byggi eða grófu hveiti og úr grænmeti og ávöxtum, en úr kökum, kexi, sælgæti, fínu brauði, pasta, hamborgarabrauði og pizzubotni.
Tengsl næringar og heilsu, og ekki síst mettaðrar fitu og hjarta- og æðasjúkdóma eru heitt málefni, og mikið rannsakað nú um stundir. Ég ætla að bíða átekta og fylgjast með þekkingunni þokast áfram, án þess að vera með gífuryrði og yfirlýsingar, sem mér finnast allt of oft einkenna umræðu um þessi mál.