Þessi pistill birtist fyrst á heilraedi.blogspot.com 30. apríl 2013

Ertu opin fyrir því óhefðbundna?

Þessa spurningu fæ ég gjarnan þegar ég fer í nudd. Ég á ekki auðvelt með að svara henni, því þó ég hafi miklar efasemdir um meðferðir sem ekki hafa vísindalegan grunn, er ég vissulega opin fyrir því að skoða nýjar (eða ævafornar) meðferðarleiðir. Og það er þannig sem vísindamenn eiga að vera. Þeir eiga að vera opnir fyrir nýrri þekkingu, opnir fyrir því að prófa nýjar (og ævafornar) aðferðir vísindalega, prófa hvort þær standast vísindalega skoðun. Geri þær það eiga þeir að taka þeim opnum örmum, innlima þær í hið hefðbundna heilbrigðiskerfi.

Sumt virkar

Nokkrar óhefðbundnar meðferðir hafa nú þegar hlotið viðurkenningu vísindanna, þó þær séu ekki allar niðurgreiddar af ríkinu. Nudd er eitt af því sem hefur sannað sig gegn vöðvabólgu og bakverkjum, sérstaklega þegar því er blandað saman við líkamsþjálfun. Jógaæfingar bæta jafnvægi og draga úr stirðleika. Ómega-3 fitusýrur hafa sannað sig gegn hjarta- og æðasjúkdómum og bólgusjúkdómum. Jóhannesarjurt virkar við vægu og meðalvægu þunglyndi. Hugleiðsla dregur úr streitu.

Í öðrum tilvikum er niðurstaðan ekki eins afgerandi. Nálastungur hafa einhverja virkni gegn vissum verkjum og ógleði. Hnykkingar á baki geta dregið úr bakverkjum.

Annað virkar ekki

Ýmsar óhefðbundnar meðferðir hafa ekki staðist vísindalega skoðun þrátt fyrir vandaðar og endurteknar rannsóknir. Enn aðrar á eftir að rannsaka betur.

Um miðjan apríl 2013 kom til landsins Edzard nokkur Ernst sem er læknir og höfundur bókarinnar Trick or Treatment ásamt Simon Singh, rannsóknarblaðamanni. Ernst er fyrrverandi prófessor í óhefðbundnum meðferðum við Exeter háskóla í Bretlandi. Hann hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands og kom í viðtal á Rás 1.

Ernst segir fjölmargar óhefðbundnar meðferðir hafa verið prófaðar vísindalega í gegnum árin. En því miður verður að segjast eins og er, að langflestar hafa þær fallið á prófinu. Þar nefnir hann meðal annars smáskammtalækningar (hómópatíu), nálastungur gegn reykingum og til að gangsetja fæðingu, hnykkingar við astma og hnykkingar á hálsi, svæðameðferð, ristilhreinsun, eyrnakerti, segularmbönd, aloe vera, og kvöldvorrósarolíu.

“En þetta virkar vel fyrir mig”, er svar sem ég fæ oft, þegar ég sting upp á að viðmælandi minn hætti í því óhefðbundna og feti í staðinn hina hefðbundnu leið til heilsueflingar. Og það er staðreynd að það hafa margir reynt á eigin skinni að óhefðbundnar meðferðir virka víst, hvort sem virknin hefur verið sönnuð vísindalega eða ekki.

Kostir lyfleysu

Er þetta ekki mótsögn við niðurstöðu Ernst? Nei, raunar ekki. Ernst segir 95% óhefðbundinna meðferða ekki hafa neina virkni umfram lyfleysu (placebo). Það þýðir að það hefur sömu virkni að taka inn hreint vatn eða sykurpillu eins og að taka inn hómópatíska remedíu á vökva eða töfluformi. Það sem skiptir máli er hvort þú trúir því að vökvinn eða pillan muni bæta líðan þína, en ekki hvort um vatn, sykur eða remedíu er að ræða. Fótanudd hefur sömu áhrif til slökunar og vellíðunar, hvort sem það heitir svæðanudd eða hefðbundið fótanudd, hvort sem “réttu” eða “röngu” svæðin á iljunum eru nudduð.

Lyfleysuáhrifin eru raunveruleg, mörgum líður betur eftir meðferð sem þeir trúa að geri þeim gott. Er æskilegt að virkja lyfleysuáhrifin til að bæta líðanina? Vissulega, og allir góðir meðferðaraðilar, hefðbundnir læknar sem óhefðbundnir græðarar, virkja þessi áhrif. Þau hjálpa vegna þess þau skapa væntingar um bata, þau gefa fólki von. En hefðbundinn meðferðaraðili gefur auk þess lyf eða beitir meðferð, sem sýnt hefur verið fram á að virkar umfram lyfleysu. Heildaráhrifin ættu því að verða meiri af hefðbundinni meðferð en óhefðbundinni. Sé það ekki svo, gæti munurinn legið í þeim tíma, athygli, samúð og hlustun, sem óhefðbundnir græðarar veita skjólstæðingum sínum, en læknar veita síður.

Gallar lyfleysu

Lyfleysuáhrifin ein og sér duga skammt þegar um raunveruleg veikindi er að ræða. Í fyrsta lagi eru þau óútreiknanleg, því þau byggja á því hversu miklar væntingar tekst að skapa hjá einstaklingnum, hversu mikla trú hann/hún hefur á meðferðinni. Í öðru lagi endast þau oft stutt, því trú hefur tilhneigingu til að dofna með tímanum, og væntingarnar valda stundum afneitun raunverulegs vanda. Slíka afneitun er erfitt að halda í til lengdar, ef sársaukaboð eða önnur einkenni eru enn til staðar.

Það versta er samt ef lyfleysuáhrif valda því að einstaklingur seinkar því eða sleppir að leita sér hjálpar innan hefðbundna heilbrigðiskerfisins. Á meðan getur sjúkdómur versnað og jafnvel orðið illviðráðanlegur.

Annað er að sumar óhefðbundnar meðferðir eru ekki bara gagnslausar, heldur hreinlega heilsuspillandi. Sem dæmi hafa sum náttúrulyf frá Asíu reynst innihalda verulegt magn þungmálma.

Endurvekja og viðhalda áhrifunum

Til að hita upp fyrir komu Ernst til landsins var haldið málþing um óhefðbundnar lækningar í Háskóla Íslands í byrjun apríl. Þar kom fram að kvíðið fólk er einn stærsti hópurinn sem leitar óhefðbundinna lækninga. Kvíði veldur líkamlegum einkennum t.d. frá stoðkerfi og meltingu, auk andlegrar vanlíðanar.

Ég þekki kvíða vel af eigin raun og hef prófað allt milli himins og jarðar í þeirri von að öðlast betri líkamlega og andlega líðan. Ef græðaranum tekst að vekja mér væntingar og vonir finn ég fyrir lyfleysuáhrifum. Líðanin batnar, andlega og stundum líkamlega. En lyfleysuáhrifin endast aldrei. Þau dvína og hverfa á stuttum tíma og ég stend uppi nokkrum þúsundköllum fátækari, og með engu betri heilsu eða líðan.

Nú, þá er alltaf hægt að fara aftur til græðarans, eða leita til annars græðara sem býður öðruvísi meðferð, prófa aðra remedíu. Þannig fór ég milli alls kyns græðara, tók fæðubótarefni, blómadropa og remedíur, prófaði nálastungur og alls konar mataræði, heilun og höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun og guð má vita hvað. Ég sé eftirá að ég var að reyna að endurvekja og viðhalda lyfleysuáhrifunum, halda í væntingar og von um bata.

Hvað skyldi ég hafa eytt miklum peningum í þetta samtals? Ég hef ekki hugmynd um það. Eitt er víst að ekkert af þessu minnkaði kvíða minn og tilheyrandi líkamlegan vanda, þó heilun og höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun hafi vissulega haft tímabundin slakandi áhrif.

Lífshættulegar aukaverkanir

Verst fannst mér þó þegar ég las í bókinni Trick or Treatment að ein meðferðin sem ég sótti stíft á tímabili, getur verið lífshættuleg. Þetta voru hnykkir á hálsi, framkvæmdir af útlærðum hnykkjurum (kírópraktorum). Það eru dæmi erlendis frá um dauðsföll af völdum heilablæðingar eftir hnykkmeðferð á hálsi. Æð sem flytur blóð til heilans getur rofnað við hnykkinn.

Það er sem sagt ekki nóg með að stirðleiki í hálsi mínum hafi aukist tímabundið eftir hverja hnykkmeðferð. Það er ekki nóg með að heildaráhrifin af margra mánaða meðferð hafi verið aukin eymsli í hálsi. Nei, það er ekki nóg með það. Ég tók bókstaflega áhættu með líf mitt í hvert skipti sem hnykkt var á hálsi mínum.

Ef ég kaupi hefðbundið lyf fylgir því seðill, þar sem taldar eru upp aukaverkanir og milliverkanir við önnur lyf, ábendingar og frábendingar. Tiltekið er í prósentum hversu algengar aukaverkanirnar eru. Oftast eru þær sárasjaldgæfar, en það er mikilvægt að sjúklingar séu upplýstir og meðvitaðir um hættuna.

Læknum ber að tilkynna allar aukaverkanir og milliverkanir sem þeir verða varir við. Ef lyf reynist hættulegt, hvað þá ef dauðsfall hlýst af, þá er lyfið umsvifalaust tekið af markaði, eins og nýleg dæmi sýna.

Hvers vegna eru hnykkjarar enn að meðhöndla hálsvandamál á þennan áhættusama máta? Hvar er innra gæðaeftirlit hnykkjara?