Þessi pistill birtist fyrst á heilraedi.blogspot.com 31. júlí 2013

Iðraólga eftir neyslu gerjanlegra sykra.

Ég skrifaði á síðasta ári pistil um frúktósavanfrásog. Titill pistilsins var bein þýðing á enska orðinu fructose malabsorption, sem er það þegar aðeins lítill hluti ávaxtasykurs kemst úr meltingarvegi í blóð. Síðan þá hef ég komist að því að mörgum finnst íslenska orðið bæði óþjált og óskiljanlegt. Það nær heldur ekki yfir nema hluta af vandamálinu. Í rauninni er um að ræða viðkvæmni fyrir ýmsum gerjanlegum sykrum, en ekki eingöngu frúktósa.

Meltingartruflanir

Ef líkaminn á erfitt með að melta gerjanlegar sykrur eða frásoga (flytja úr þörmum í blóð), verða þær að fæði fyrir gerlaflóruna í ristlinum. Við gerjunina myndast gas, sem getur valdið uppþembu og vindgangi. Meltingartruflanirnar geta líka lýst sér með ristilkrömpum, hægðatregðu eða niðurgangi.

FODMAP

Gerjanlegar sykrur eru frúktósi, frúktan, raffinósi, polyol og laktósi. Þessi efni eru einu nafni nefnd FODMAP (Fermentable Oligo-, Di-, Monosaccharides And Polyols).

Frúktósi er ávaxtasykur. Hann er í öllum ávöxtum, hvítum sykri, hunangi, HFCS (kornsírópi) og agavesírópi.

Frúktan eru stuttar keðjur frúktósaeininga. Þær eru í hveiti, rúgi, lauk, kúrbít, ætiþistli (artichoke) og í aukefnunum frúktóólígósakkaríði (FOS) og inúlíni.

Raffinósi er í flestum baunum, hvítkáli, rósakáli og spergli (aspas).

Polyol eru í eplum, perum, öllum ávöxtum með steini og í sætuefnunum sorbitól, xylitól og isomalt.

Laktósi er í öllum mjólkurvörum öðrum en smjöri og gerjuðum ostum, og er sama hvort þær eru úr kúamjólk eða geitamjólk.

Frúktan og glúten

Frúktan og glúten eru í sömu korntegundunum. Glútenlaus brauð, kökur, kex og pasta henta þess vegna vel fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir gerjanlegum sykrum.

Glútenofnæmi (glútenóþol) er þegar jafnvel örlítið magn glútens veldur því að líkaminn ræðst á þarmatoturnar og eyðileggur þær. Það er hægt að mæla glútenofnæmi með blóðprufu og speglun á skeifugörn. Aftur á móti er ekki komin nein rútínumæling á viðkvæmni fyrir gerjanlegum sykrum. Blóðprufa og þarmatotur eru eðlilegar við skoðun.

Frúktósi og glúkósi

Flestir þeir sem viðkvæmir eru fyrir gerjanlegum sykrum þola þær í litlu magni. Það er því óþarfi fyrir þá að fylgja ströngu glútenlausu fæði. Þeir þola líka frúktósann betur ef glúkósi (þrúgusykur) er til staðar. Glúkósinn hjálpar frúktósanum að frásogast úr þörmum í blóð. Þess vegna veldur hvítur sykur síður vanda en HFCS og agave, þar sem hvítur sykur inniheldur glúkósa og frúktósa í jöfnum hlutföllum, en HFCS og agave innihalda frúktósa í yfirmagni. Sömuleiðis valda banani, appelsínur, sítrónur, rabarbari, bláber og cantaloupe melónur síður vanda en epli, perur og vatnsmelóna, þar sem fyrrnefndu ávextirnir hafa glúkósa í yfirmagni, en þeir síðarnefndu yfirmagn af frúktósa.

Mjólkursykur

Mjólkursykur inniheldur glúkósa og galaktósa í jöfnum hlutföllum. Mjólkursykursóþol er hægt að mæla með mjólkursykursþolprófi. Þá eru teknar nokkrar blóðprufur í röð eftir neyslu mjólkursykurs á vökvaformi. Þeir sem hafa mjólkursykursóþol skortir ensím til að kljúfa glúkósann frá galaktósanum. Sumir eru með mjólkursykursóþol en geta borðað aðrar gerjanlegar sykrur án verulegra vandkvæða. Hjá öðrum er það öfugt. Þeir geta neytt mjólkurvara en þola aðrar gerjanlegar sykrur illa. Fyrir þá getur verið kostur að borða t.d. epli og perur með rjóma. Glúkósinn úr mjólkursykrinum hjálpar frúktósanum að frásogast. Sumir eru viðkvæmir fyrir öllum gerjanlegum sykrum, hvort sem þær koma úr mjólk, ávöxtum, hveiti, baunum eða lauk.

Iðraólga

Margir sem hafa fengið þann dóm að vera með iðraólgu (irritable bowel syndrome, IBS), og hefur verið sagt að ekkert sé við henni að gera, fá bata ef þeir sneiða hjá gerjanlegum sykrum í fæði sínu.

Nákvæmari lista yfir fæðutegundir sem ætti að forðast, og hvað hægt er að borða í staðinn, er hægt að nálgast hjá mér í Heilræði.