Þessi pistill birtist fyrst á heilraedi.blogspot.com 9. nóvember 2013

Fæðuóþol og Food Detective.

Þann 10. október 2013 fylgdi Fréttablaðinu sérblaðið Gengur vel. Þar var heilsíðuauglýsing frá fyrirtækinu Heilsanheim.is. Auglýst var greiningartækið Food Detective sem á með mælingu á IgG4 mótefninu í blóði að geta greint óþolsvalda úr fæðu. Mælinguna á hver sem er að geta framkvæmt heima hjá sér. Einnig voru í auglýsingunni gefin upp nöfn fjórtán meðferðaraðila sem framkvæma fæðuóþolsmælingu með Food Detective greiningartækinu og gefa í kjölfarið leiðbeiningar um hvernig best er að forðast óþolsvaldana, og hvað óhætt er að borða í staðinn.

Vandaðar vísindarannsóknir hafa ítrekað sýnt að IgG4 mótefnamælingar eru gagnslausar með öllu til að finna ofnæmis- eða óþolsvalda úr fæðu. Það er því hrein peningasóun að kaupa Food Detective greiningartækið eða fara í Food Detective mælingu hjá meðferðaraðila.

Orsakir og einkenni fæðuóþols

Fæðuóþol ræsir ekki ónæmiskerfið á sama hátt og fæðuofnæmi. Fæðuofnæmi er hægt að greina með mælingu á öðru mótefni sem heitir IgE, en sú mæling greinir ekki fæðuóþol.

Ýmsar fæðutegundir og aukefni í fæðu geta valdið fæðuóþoli. Fæðuóþolseinkenni eru svipuð fæðuofnæmiseinkennum, en yfirleitt aldrei lífshættuleg. Einkennin geta verið frá húð, meltingarvegi eða öndunarfærum, og jafnvel höfuðverkur, þreyta eða liðverkir. Einkennin koma fram 30 mín til 12 klst eftir neyslu óþolsvaldsins.

Ástæða fæðuóþols getur t.d. verið ensímskortur. Skortur á ensíminu laktasa veldur t.d. mjólkuróþoli, því ef laktasann vantar getur líkaminn ekki brotið mjólkursykurinn niður í meltingarveginum. Mjólkuróþol er hægt að staðfesta með því að gefa sjúklingnum mjólkursykur á fastandi maga og taka nokkrar blóðprufur næstu klukkustundirnar til að fylgjast með því hvort mjólkursykurinn meltist og hækkar blóðsykurinn.

Fæðuóþol af ókunnum orsökum

Oft finnst engin ástæða fyrir fæðuóþoli og engin aðferð til að mæla það. Einfaldast er að prófa að sleppa grunuðum óþolsvaldi úr fæðinu í 2 vikur og fylgjast með hvort einkennin hverfa. Bæta svo óþolsvaldinum aftur við fæðið og sjá hvort einkennin koma aftur.

Hugurinn stýrir taugakerfinu, og hefur því áhrif á tilfinningar og líðan, líka líkamlega líðan. Væntingar okkar um bata geta valdið því að einkenni hverfa tímabundið, jafnvel í nokkrar vikur. Ef við erum alveg viss um að einkenni muni koma aftur þegar grunuðum óþolsvaldi er bætt við fæðið, getur það eitt og sér valdið því að einkennin koma aftur. Þetta er gott að hafa í huga ef okkur grunar að við séum með fæðuóþol. Best er að endurtaka tilraunina nokkrum sinnum til að vera viss um að við höfum fundið raunverulega ástæðu lasleikans.

Fæðuáreitispróf

Eina leiðin til að staðfesta fæðuóþol af ókunnum orsökum er með tvíblindu fæðuáreitisprófi með lyfleysu (control). Þá eru útbúnir tveir skammtar af samskonar mat, og hinum grunaða óþolsvaldi blandað í annan skammtinn, án þess það breyti útliti matarins, bragði, ilmi eða áferð. Sjúklingurinn mætir tvisvar í fæðuáreitispróf með viku millibili. Í annað skiptið fær hann skammtinn með óþolsvaldinum, en í hitt skiptið skammtinn án óþolsvaldsins. Sá sem útbýr skammtana er sá eini sem veit hvor skammturinn inniheldur óþolsvaldinn. Sá sem gefur sjúklingnum viðkomandi skammt og fylgist með einkennunum, veit hins vegar ekki hvor skammturinn inniheldur óþolsvaldinn, og sjúklingurinn veit það ekki heldur. Þess vegna kallast þetta tvíblint próf, af því báðir aðilar eru blindir fyrir því hvort viðkomandi skammtur inniheldur hinn grunaða óþolsvald.

IgG4 mótefnamæling

Mikið hefur verið reynt að finna einfaldari og fljótlegri leið til að staðfesta fæðuóþol af ókunnum orsökum. Eitt af því helsta sem hefur verið rannsakað er mæling á IgG mótefninu í blóði og undirflokknum IgG4.

Því miður benda rannsóknir til þess að mæling á IgG eða IgG4 sé gagnslaus til greiningar á fæðuóþoli. Líkami okkar framleiðir IgG mótefni fyrir þeim fæðutegundum sem við komumst oft í snertingu við, án þess því fylgi nokkur ofnæmis- eða óþolseinkenni. Þetta hefur t.d. verið prófað með því að spyrja stóran hóp fólks um fæðuvenjur og einkenni sem geta bent til fæðuóþols. IgG4 fyrir ýmsum fæðutegundum var mælt í blóði þeirra. Það mældist hækkun á mótefninu IgG4 fyrir þeim fæðutegundum sem algengar voru í fæði fólksins, en engin tengsl við fæðuóþolseinkenni (BMC gastroenterol. 2012; nov 21; 12:166.). Samtök Evrópskra ofnæmis- og ónæmisfræðinga (European academy of allergy and clinical immunology) gáfu sömuleiðis út yfirlýsingu árið 2008 um að IgG mælingar væru gagnslausar og gæfu eingöngu til kynna ítrekaða snertingu við viðkomandi matvæli (Allergy 2008: 63 : 793-796).

Food Detective er gagnslaust próf

Hver sem kaupir Food Detective greiningartækið og framkvæmir prófið heima, eða fer til meðferðaraðila sem býður upp á þetta próf, fær lista yfir ýmis matvæli sem fullyrt er að hann eða hún þoli ekki. Staðreyndin er sú að IgG4 mótefni fyrir fæðutegundum gefur bara til kynna að maður hafi ítrekað komist í snertingu við viðkomandi fæðutegundir.

Það getur verið mjög flókið að sleppa algengum matvælum alfarið úr fæði sínu. Það getur skert lífsgæði og valdið næringarskorti ef ekki er borðuð nógu fjölbreytt fæða af þeim fæðutegundum sem einstaklingurinn þolir. Oft þurfa einstaklingar með staðfest fæðuofnæmi eða fæðuóþol að taka inn fæðubótarefni til að koma í veg fyrir skort. IgG4 mótefnamæling er ekki rétta forsendan til að taka það skref að takmarka fjölbreytni fæðunnar.