Þessi pistill birtist fyrst á heilraedi.blogspot.com 3. febrúar 2010

Gras og fiskimjöl

Ómega-3 fitusýrur eru lífsnauðsynlegar fitusýrur sem við verðum að fá úr fæðunni. Þær gegna mörgum mikilvægum hlutverkum í líkamanum, og eru eitt aðalbyggingarefni heilans, sjónhimnunnar og sáðfrumna. Ómega-3 fitusýrur er að finna í öllum sjávarafurðum. Einnig er minna virkt form þeirra að finna í valhnetum, brokkólí, sojaolíu, repjuolíu (raps, canola) og hörfræjum. Við fáum líka dálítið af ómega-3 fitusýrum úr kjöti og eggjum.

Oft er meira af ómega-3 fitusýrum í villtum jurtum en ræktuðum og villt dýr nærast á villtum jurtum. Þess vegna er yfirleitt meira af ómega-3 fitusýrum í kjöti af villibráð en af húsdýrum. Magni ómega-3 fitusýra í afurðum eldisfiska og húsdýra er þó hægt að stýra með fóðruninni. Það er mikið af ómega-3 fitusýrum í grasi. Þess vegna er kjöt af kúm og kindum ríkara af ómega-3 fitusýrum ef þau eru alin á grasi, heldur en kjöt af dýrum sem alin eru á korni á borð við maís og bygg, eins og tíðkast í mörgum löndum.

Þar sem ómega-3 fitusýrur er að finna í öllum sjávarafurðum er kjöt af kjúklingum og svínum sem alin eru að hluta til á fiskimjöli ríkara af ómega-3 fitusýrum en ef dýrin eru eingöngu alin á kjötmjöli eða korni. Eggin verða líka ríkari af ómega-3 fitusýrum ef hænurnar fá fiskimjöl.

Ég vil því hvetja bændur landsins til að halda þeirri góðu venju að ala kýr og kindur á grasi, og fóðra kjúklinga og svín á fiskimjöli.

Heimildir: Simopoulos AP. Lipids 2001;36 Suppl:S83. Simopoulos AP. Am J Clin Nutr 1999;70 Suppl:S560. Clapham WM et al. J Agric Food Chem 2005;53:10068. Wood JD and Enser M. Br J Nutr 1997;78 Suppl:S49.