Þessi pistill birtist fyrst á heilraedi.blogspot.com 31. október 2014
Norrænn Matur
Miðjarðarhafsmataræði vann sér virðingarsess í næringarfræðunum fyrir nokkrum áratugum síðan þar sem endurteknar rannsóknir bentu til þess að það gæti unnið gegn þróun ýmissa krónískra sjúkdóma. Sérstaða Miðjarðarhafsmataræðisins er hve stór hlutur ólífuolíu, grænmetis, ávaxta, og fiskjar er í fæðinu.
Undanfarin ár hafa rannsóknir sýnt að norrænt fæði er ekki síður heilsusamlegt. Það byggir á fæðutegundum sem eru ræktaðar í svölu loftslagi Norðurlandanna, eða eru afurðir villtra dýra og plantna á Norðurslóðum.
Sérstaða
Sérstaða norræns mataræðis er fiskur, villibráð, afurðir grasbíta eða húsdýra í lausagöngu (samanber hreindýr í Skandinavíu og íslensk lömb), ber, ávextir eins og epli og perur, rótargrænmeti, kál og kartöflur, sveppir, repjuolía (canola) og korntegundirnar rúgur, hafrar og bygg.
Sumar þessara fæðutegunda hafa verið á borðum norrænna manna um aldir en aðrar ekki. Þar til nýlega var bygg aðallega notað til bruggunar og sem dýrafóður. Nú nýtur það vaxandi vinsælda sem meðlæti í stað hrísgrjóna, til grautargerðar og sem mjöl í brauð. Repjan var eingöngu ræktuð sem dýrafóður þar til aðferð var þróuð til að ná olíunni úr fræinu.
Norrænt fæði er trefjaríkara en vestrænt nútímafæði. Það inniheldur minna salt og meira af ómega-3 fitusýrum sem koma bæði úr sjávarafurðum og úr repjuolíu.
Trefjar
Trefjarnar koma ekki síst úr heilkorninu. Á meðan hveiti og hrísgrjón eru yfirleitt úrmöluð svo lítið annað en auðmeltanleg kolvetni lenda í maga okkar mannanna er ekki hefð fyrir því að úrmala rúg, bygg og hafra. Kornið er ýmist notað heilt, flatt út eða malað án þess að henda klíði og kími. Þannig verða ekki bara trefjar heldur líka vítamín, steinefni og önnur lífvirk efni til staðar í mjölinu og þar af leiðandi í brauðinu, grautnum og kökunni.
Neysla heilkorns og korntrefja hefur verið tengd minni hættu á þróun ýmissa krónískra sjúkdóma. Í síðustu viku varði Óla Kallý Magnúsdóttir doktorsrannsókn sína í næringarfræði við Háskóla Íslands.
Rúgur og hveiti
Þátttakendur rannsóknarinnar voru með væga efnaskiptavillu og viss hætta á að þeir gætu þróað með sér sykursýki 2. Helmingur þeirra fékk leiðbeiningar um að fylgja norrænu mataræði í um hálft ár. Hinn helmingurinn hélt áfram að borða sitt venjubundna fæði.
Með því að mæla efni úr rúgi annars vegar og hveiti hins vegar í blóði hvers þátttakanda mátti sjá vísbendingu um lægra fastandi insúlín, betra insúlínnæmi og hagstæðari blóðfitugildi hjá þeim sem borðuðu mest af rúgi og minnst af hveiti.
Þetta eru áhugaverðar niðurstöður þó það sé allt of snemmt að fullyrða að rúgur hindri þróun sykursýki. Vonandi verður þetta rannsakað betur í framtíðinni.
Norrænt fæði hefur ýmsa kosti fyrir heilsuna. Það byggir á góðu hráefni sem er lítið unnið. Auk þess er umhverfisvænna að borða mat sem ræktaður er á heimaslóðum því þá þarf ekki að flytja matinn langar leiðir með tilheyrandi loftmengun.