Þessi pistill birtist fyrst á heilraedi.blogspot.com 3. nóvember 2023

Hugleiðingar um matarfíkn og áföll

Bókin Processed food addiction, foundations, assessment and recovery eftir Ifland, Marcus og Preuss fjallar um fíkn í gjörunnin matvæli. Hana las ég nýlega og á sama tíma var ég að lesa Líkaminn geymir allt (The body keeps the score) eftir van der Kolk sem fjallar um áföll og afleiðingar þeirra. Á kvöldin hvíldi ég hugann með léttu afþreyingunni Meðleigjandanum eftir O’Leary. Þessar bækur töluðu allar til mín í kór.

Rannsóknir á heila þeirra sem hafa orðið fyrir áföllum minna grunsamlega mikið á rannsóknir á heila þeirra sem eru haldnir fíkn í gjörunnin matvæli. Sprettur fíkn í gjörunnin matvæli af áföllum? Aðalsögupersóna Meðleigjandans hermir við þá kenningu mína.

Matarfíkn, er hún til?

Það er enn deilt um hvort matarfíkn er yfirhöfuð til eða hvort hún er hluti af átkastaröskun (binge eating disorder, BED). Munurinn á meðferð við þessum röskunum er í hnotskurn hvort mælt er með fráhaldi frá ákveðnum matvælum (forðast þau alfarið), eða hvort stefnt er að því að þroska með sér heilbrigt samband við öll matvæli (geta borðað allt í hófi). Báðar innifela mikla andlega vinnu.

Það er líka deilt um hvort fíkn í gjörunnin matvæli sé sköpuð af fíknivekjandi efnum í matnum, efnum sem hafa svipuð áhrif á heilann og áfengi og önnur eiturlyf, eða hvort áráttukennd hegðunin sé fíknilík, svipað og spilafíkn. Hún gæti þá verið flótti frá erfiðum tilfinningum eða hugsunum og tengst áföllum, eða hvað?

Sykur og hveiti vekja vellíðan

Ég trúi því alveg upp á sykur, hvítt hveiti, salt, og blöndu fitu og sykurs, að fíknin snúist um efni sem vekja vellíðan, meiri vellíðan en önnur hollari og minna unnin matvæli. Ég held að flest finni fyrir löngun til að borða meira en þau hafa gott af ef þau byrja að fá sér af þessum matvælum.

En í bók Ifland et al. eru matvælin miklu fleiri sem talin eru hafa þessi áhrif. Öll fita, glúten, allar kornvörur, mjólkurvörur (hreinar mjólkurvörur, bæði feitar og magrar), auk koffíns. Og á einum stað er minnst á enn fleiri sem ýmis á þessu fræðasviði telja eiga heima á listanum. Þetta eru einhverjar tegundir af hnetum og kartöflur. Þá féll mér allur ketill í eld. Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki hægt að fá fíkn í hvað sem er, bara eitthvað sem notað er sem flóttaleið frá vanlíðan, “fíknin” sé ekkert annað en áráttukennd hegðun.

Hinn hungraði heili

Svo ég vitni í ennþá fleiri bækur sem ég hef lesið: Í bókinni The hungry brain eftir taugavísindamanninn Guyenet eru sannfærandi rannsóknir kynntar sem benda til þess að öll upplifi sterka hvöt til ofáts þegar kemur að orkuríkum matvælum sem eru auðmeltanleg og uppfylla ákveðin bragðskilyrði. Heili okkar sé gerður til þess að forgangsraða inntöku þessara matvæla og uppsöfnun orkuefnanna í fituvef af því að frá örófi alda markaðist lífið af reglulegum hungursneyðum sem gátu í fyrsta lagi gengið af okkur dauðum og þó þær yrðu ekki svo alvarlegar gátu þær bitnað á frjóseminni, fækkað afkomendum okkar.

Áður en matvælavinnsla hélt innreið sína voru orkurík matvæli jafnframt rík af öðrum nauðsynlegum næringarefnum á meðan gjörunnin matvæli nútímans eru orkurík en næringarsnauð. Elsti hluti heila okkar sem stýrir hvötunum hefur aftur á móti ekki hugmynd um það og yfirvinnur hinn skynsama framheila þegar að áti kemur. Það er því innprentað í genin að velja kleinuhring fram yfir gulrót, hamborgara fram yfir salat. Hvötin verður einmitt sérlega sterk gagnvart gjörunnum matvælum þar sem engar trefjar tefja meltingu og frásog, kikkið kemur strax.

Sum eru stjórnlausari en önnur

En þó að við höfum öll tilhneigingu til að borða yfir okkur af óhollustu við og við er vandamálið alvarlegra fyrir sum okkar en önnur. Er ástæðan áfallastreita eða flótti frá andlegri vanlíðan? Þau fá stundum greiningu um átkastaröskun eða matarfíkn.

Rannsóknirnar sem tíundaðar eru í bók Ifland et al. eru sannfærandi. Margar dýrarannsóknir en með árunum hafa fleiri mannarannsóknir rennt stoðum undir kenninguna um fíknivekjandi efni sem bæla niður heilastöðvar ákvarðanatöku, minnis, hömlunar (að geta hamið sig) og einbeitingar. Þessi efni kveikja jafnframt á verðlaunabrautum heilans sem geta líka bælst niður ef efnið er tekið reglulega þannig að það þarf alltaf meira og meira af efninu til að fá verðlaunin (sæluna).

Það þarf ekki annað en að fíklinum séu sýndar myndir af þessum gjörunnu matvælum. Myndir, ilmur og fleira eru kallaðar kveikjur (cues). Þegar kveikjan er í nánd kviknar á sterkri löngun (craving, ílöngun). En getur kveikjan ekki alveg eins verið hugsun, tilfinning eða áfallaminning sem heilinn flýr með því að kveikja í staðinn á löngun í gjörunnin matvæli til að fá frí frá vanlíðaninni og öðlast huggun eða sælu?

Víma fíknarinnar

Í bók Ifland et al. er tíundað að þau sem sokkin eru djúpt í fíknina finni fyrir vímu eða heilaþoku eftir neyslu efnisins sem getur orðið svo slæm að þau eiga erfitt með að aka bíl og halda sér vakandi, læra nýja hluti o.s.frv.

Heilabreytingarnar eru í bókinni kallaðar skerðing á vitrænni getu sem hljómar eins og heilabilun en síðar í bókinni er nefnt að hugræn atferlismeðferð (HAM) sé ein nokkurra aðferða sem hefur sýnt sig að geta snúið dæminu við. Það er hægt að þjálfa minnið, læra að hemja sig, einbeita sér og taka betri ákvarðanir þegar að fæðuvali kemur. Heilaþjálfun er það kallað (braintraining).

Vondu matvælarisarnir

Mér finnst nálgun fíknar á vandann sem vestrænt nútímamataræði hefur valdið heilsu og líkamsþyngd fjölmargra áhugaverð. Þó sumum takist að ná árangri með heljarinnar átaki á ketó, föstu eða á öðrum kúr, sem núorðið er aldrei kallaður kúr heldur lífsstílsbreyting, þá rennur átakið oft út í sandinn. Til lengdar er erfitt að borða öðruvísi en öll hin, það koma jól og afmælisveislur og það koma ferðalög, grillveislur og kaffihúsaferðir sem kveikja á fíkninni. Freistingarnar eru alls staðar í kringum okkur, vandlega markaðssettar. Í bók Ifland et al. er sagt frá því að stór matvælafyrirtæki ráða bæði sálfræðinga og taugalíffræðinga auk matvælafræðinga til að skapa einmitt réttu efnablönduna til að kveikja sem allra mesta löngun og fá okkur til að kaupa sem allra mest og kaupa aftur og aftur, komast á bragðið, verða „þrælar“ þeirra.

Ifland et al. segja að ástæða þess að ketó og föstur virka ekki til lengdar sé að þá sé mælt með því að borða ýmislegt sem viðheldur vandanum af því að það vekur fíkn. Það sé þess vegna ekki búið að ráðast að rótum vandans. Það séu efnin í gjörunnum matvælum sem valda þyngdaraukningu. Þau sem halda sig frá þessum efnum grennist og fitni ekki aftur svo lengi sem þau standa við það.

Gjörunnin matvæli eru alls staðar

Ég er ekki sannfærð um að það gangi neitt betur að fylgja þeim bannlista sem Ifland setur fram heldur en öðrum bannlistum eða aðferðum. Ég óttast að aðferð Ifland sé því miður bara ein grenningarleiðin enn sem mun bíða skipbrot eins og allar hinar. Ekki vegna þess að fíkn geti ekki verið raunveruleg þegar að vissum matvælum kemur heldur vegna þess að gjörunnin matvæli eru alls staðar og nánast útilokað að forðast þau til lengdar.

Ég fór á námskeið um matarfíkn fyrir fimmtán árum síðan. Þá voru rannsóknir komnar miklu styttra á veg og nálgunin var mun öfgakenndari en henni er lýst í bók Ifland et al.

Bataferli í skrefum

Fullkomið fráhald sé erfitt í reynd í nútímaþjóðfélagi, segir í bókinni. Bataferlið megi taka í skrefum, bakslög í fleirtölu séu eðlilegur hluti af bataferli, skoða eigi hvert bakslag af forvitni án þess að dæma sig til að læra meira um sjálfan sig og sína fíkn. Fyrir mörg sé skaðaminnkun, að borða minna af gjörunnum matvælum, og/eða borða þau sjaldnar, betri nálgun en fráhald, það sé raunhæfara markmið.

En hver er þá munurinn á framsetningu Ifland et al. og hefðbundinni þyngdarhlutlausri nálgun (hugsa um heilsuna frekar en þyngdartap, lausnin sé að borða oftast hollt en geta leyft sér allt stöku sinnum í hófi)?

Heilasjúkdómur

Mér sýnist munurinn annars vegar felast í því hvernig vandinn er útskýrður fyrir skjólstæðingnum og hins vegar áherslan á að forðast kveikjur til að komast hjá ákafri löngun/ílöngun.

Vandinn er útskýrður þannig að fíkn sé heilasjúkdómur, skapaður af matvælafyrirtækjum sem hafa gert þau að þræl efna sem vekja fíkn í matvæli sem valda þyngdaraukningu og versnandi heilsu. Það hjálpar þeim að fyrirgefa sér hvernig komið er fyrir þeim.

Einangrun eða ilmkjarnaolía

Hvað varðar að forðast kveikjur stinga Ifland et al. upp á því að fá einhverja til að kaupa inn fyrir sig fyrstu vikurnar eða mánuðina sem stefnt er að fráhaldi, versla í matinn á netinu er önnur uppástunga, og svo að forðast staði og aðstæður þar sem boðið er upp á gjörunnin matvæli. En ef slík forðun er tekin alvarlega er ég hrædd um að það endi með félagslegri einangrun sem er ekki gott fyrir andlega heilsu neins.

Ifland et al. kynna eina athyglisverða aðferð til að nota í freistandi aðstæðum. Það er að hafa í vasa sínum ilmkjarnaolíu með blómailmi og nota hana til að rjúfa hið stjórnlausa atferli fíknarinnar (sjá kveikju og teygja sig ósjálfrátt eftir fíkniefninu). Í staðinn er olían dregin fram, augunum lokað og þefað upp úr glasinu í örstutta stund. Þau kalla þetta að ná tengslum við kjarna sinn til að slökkva á hvötunum.

Minnkar ílöngun eða eykst?

En Ifland et al. fullyrða líka að ílöngun minnki því lengur sem fráhald varir á meðan sálfræðingurinn Craighead sem skrifaði bókina Þekktu þitt magamál (Appetite Awareness Workbook) talar þvert á móti um að þau sem neita sér um það sem þau langar í, sem önnur geta leyft sér að borða, geta lent í því að með tímanum magnist löngunin upp. Sífellt erfiðara verði að standast freistinguna þangað til þau springa á limminu og úða í sig.

Þetta minnir á orð Láru Kristínar Pedersen í bókinni Veran í moldinni. Lára glímir við matarfíkn og notar fráhald til að takast á við hana. Hún segir á einum stað í bókinni að matarfíkn versni með tímanum hvort sem matarfíkillinn er í fráhaldi eða ekki. Í hvert skipti sem matarfíkillinn „fellur“ fer hann dýpra inn í fíknina, svo það verður sífellt erfiðara að komast aftur á beinu brautina, í fráhald á ný.

Ytri og innri stýring

Ytri stýring eins og bannlisti og fráhald verður erfiðari og erfiðari með tímanum, segir í Þekktu þitt magamál, á meðan innri stýring (hlusta á svengd og seddu, hugsanir og tilfinningar) og heilaþjálfun/braintraining verður auðveldari og auðveldari með æfingunni.

Ef við túlkum minnstu mistök eða bakslag sem „fall“, ýkjum það upp úr öllu valdi, verður erfiðara að komast yfir það. En ef við beitum sjálfsmildi og skoðum hvert bakslag með forvitni án þess að dæma okkur verður auðveldara að komast aftur á beinu brautina. Með æfingu, endurtekningu, þjálfum við heilann og lærum smám saman að hemja okkur og taka betri ákvarðanir.

Hvort sem fráhald eða heilaþjálfun er valin hvet ég þau sem vilja takast á við ofát á gjörunnum matvælum til að muna að bakslög í fleirtölu eru eðlilegur hluti af bataferli. Skoða ber hvert bakslag af forvitni án þess að dæma sig.

Ef orsök stjórnleysisins er áfall eða andleg vanlíðan er ekki úr vegi að skoða það með sálfræðingi eða öðrum fagaðila á því sviði.