Þessi pistill birtist fyrst á heilraedi.blogspot.com 20. janúar 2010

Aukið þol og meiri gleði

Fyrir nokkrum árum var gerð rannsókn á hreyfingu og lífsstíl 7-9 ára barna í 6 skólum í Reykjavík.

Hreyfingu var fléttað inn í skólastarf barnanna í þremur skólanna, auk þess sem neysla grænmetis, ávaxta, fiskjar og lýsis var aukin. Rannsóknin tók tvö ár, og ekki var annað að heyra en að börn, kennarar og foreldrar hefðu verið ánægðir með framtakið. Það er vonandi að það verði framhald á þessu starfi í öllum grunnskólum landsins. Það var gaman að heyra kennara lýsa því hvað hún hafði gaman af því að stíga út úr rammanum og flétta hreyfingu inn í stærðfræði og íslenskukennslu. Ég verð að viðurkenna að það hljómar furðulega, en jafnframt mjög skemmtilega að læra þessi fög utandyra, við leik sem krefst hreyfingar. Ég er ekki hissa að eftir hreyfistund utandyra séu börnin rólegri, einbeittari og agavandamál færri í skólastofunni.

RÚV sýndi síðastliðinn vetur heimildarmynd um rannsóknina og birti viðtal við forsvarsmenn hennar í Kastljósi. Það besta fannst mér að í myndinni og viðtalinu var hvorki minnst á kaloríur né kíló, heldur bragðgóðan mat og skemmtilega leiki, á aukið þol og meiri gleði.