Þessi pistill birtist fyrst á heilraedi.blogspot.com 27. janúar 2010
Léttari æska á villigötum
Ég verð að lýsa vonbrigðum með vefsíðuna www.lettariaeska.is sem var vígð í gær. Í fyrsta lagi eru viðmið WHO fyrir æskilega þyngd barna og unglinga of lág. Og þó það komi fram í smáa letrinu á síðunni að ekki beri að taka viðmiðin bókstaflega, þá verður að hafa í huga að fæstir lesa smáa letrið. Þess vegna finnst mér ekki rétt að setja þessi viðmið í töflu eins og heilagan sannleik.
Í öðru lagi beinir þessi síða sjónum að ákveðnum hópi barna og foreldra þeirra, og hamrað á því að þau eigi við vandamál að stríða, og það sé á ábyrgð þeirra að leysa vandann. Vandinn er sagður líkamlegur, félagslegur og andlegur. Sá hluti vandans sem er félagslegur (neikvæð athygli, áhyggjur af vaxarlagi, einelti og félagsleg einangrun) er sprottinn af fordómum gagnvart fólki sem passar ekki inn í rammann hvað varðar útlit. Ég er ansi hrædd um að þessi síða muni bara auka félagslegan vanda barna, því hún ýtir undir neikvæða athygli og áhyggjur af vaxtarlagi. Þannig getur barn sem fer inn á síðuna og ber sig saman við viðmiðin í töflunni fengið áhyggjur af vaxtarlagi sínu, og foreldrar geta fengið áhyggjur af vaxtarlagi barna sinna. Sömuleiðis fær barn, sem er svo heppið að vera innan marka samkvæmt töflunni, ástæðu til að sýna barni sem er ekki jafn heppið, neikvæða athygli.
Lausnirnar sem boðið er uppá á síðunni (takmörkun skjátíma, hreyfing, útileikir, aukin grænmetis og ávaxtaneysla, aukin fiskneysla, minni skyndibiti) eru góðar í sjálfu sér. En þessi ráð eiga við um öll börn og allar fjölskyldur í landinu. Og þannig vil ég frekar að framsetning lýðheilsusjónarmiða sé. Ég myndi ekki vilja hafa nein viðmið í töflu á síðu eins og þessari. Bætt heilsa og betri líðan á ekki að snúast um kaloríur og kíló, heldur um heilbrigða lífshætti, innri sátt og að fá að vera maður sjálfur í samfélagi við aðra. Má ég heldur sjá meiri hreyfingu fléttað inn í skólastarf grunnskólanna, hollari mat í mötuneytunum, og fræðslu um heilbrigða lífshætti til allra foreldra og barna þeirra.