Fæðingarþyngd íslenskra barna er óvenju há borið saman við tölur frá flestum öðrum Evrópuþjóðum og útkoma meðgöngu góð. Langt fram á 20. öldina einkenndist fæði Íslendinga af neyslu sjávarfangs og lýsis, sem er ríkt af fjölómettuðu ómega-3 fitusýrunum eikósapentaensýru (EPA) og dókósahexaensýru (DHA). EPA er forveri prostaglandína og annarra eikósanóíða sem auka blóðflæði til fylgju. DHA gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þroska fósturs og fylgjan flytur DHA sértækt úr blóði móðurinnar til fóstursins. Mikið er af DHA í frumuhimnum heila og taugakerfisins, þar sem hún eykur fljótanleika himnanna og er talin taka þátt í boðefnaflutningi. Fyrstu vikur meðgöngunnar skipta ekki síður máli fyrir þroska fósturs en seinni hluti meðgöngu. Það er því mikilvægt að konur á barneignaraldri hafi forða af ómega-3 fitusýrum þegar til getnaðar kemur. Fitusýrusamsetning rauðfrumna segir til um stöðu fjölómettaðra fitusýra hjá einstaklingi, en mikilvægt er að rauðfrumusýni séu geymd við rétt skilyrði, þar sem járnið í rauðfrumunum getur hvatað peroxun fjölómettuðu fitusýranna. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna fitusýrusamsetningu rauðfrumna frá þunguðum og óþunguðum konum á barneignaraldri, og bera hana saman við neyslu, lífshætti og útkomu meðgöngu. Annað markmið var að kanna stöðugleika fjölómettaðra fitusýra í rauðfrumum við mismunandi geymsluskilyrði.
Fylgni milli neyslu ómega-3 fitusýra, lífshátta og útkomu meðgöngu var könnuð meðal 549 þungaðra kvenna tvisvar á meðgöngu. Rauðfrumusýni voru tekin úr 176 þessara kvenna, fitusýrusamsetning könnuð og borin saman við neyslu, lífshætti og útkomu meðgöngu. Rauðfrumusýni voru einnig tekin úr 45 óþunguðum konum á barneignaraldri, fitusýrusamsetning könnuð og borin saman við neyslu og lífshætti. Að lokum voru rauðfrumusýni tekin úr 13 óþunguðum konum á aldrinum 25 til 55 ára og skipt í sjö hluta sem geymdir voru mislengi, ýmist með eða án viðbætts andoxunarefnis.
Jákvæð fylgni var milli neyslu ómega-3 fitusýra og hluts þeirra í rauðfrumum bæði meðal þungaðra og óþungaðra kvenna. Fjölþátta aðhvarfsgreining á neyslu, lífsháttum og útkomu meðgöngu hjá öllum þunguðu konunum leiddi í ljós að neysla lýsis í byrjun meðgöngu tengdist aukinni þyngd nýbura þegar leiðrétt hafði verið fyrir meðgöngulengd og lífsháttum. Reykingar og áfengisneysla tengdust aftur á móti minni fæðingarþyngd. Aukinn hlutur ómega-3 fitusýra í rauðfrumum í byrjun meðgöngu tengdist léttari fylgju þegar leiðrétt hafði verið fyrir fæðingarþyngdinni. Hlutur DHA hækkaði í rauðfrumum kvennanna eftir því sem leið á fyrri hluta meðgöngunnar. Reykingar tengdust lægri hlut DHA í rauðfrumum á fyrri hluta meðgöngu, en neysla á léttum bjór auknum hlut DHA í rauðfrumum á seinni hluta meðgöngu. Líkamsrækt og notkun getnaðarvarnarpillu tengdust auknum hlut DHA í rauðfrumum óþungaðra kvenna.
Fjölómettaðar fitusýrur í rauðfrumusýnum voru stöðugar í fjórar vikur við -20°C án þess að andoxunarefni hefði verið bætt í sýnin, en eftir það fór hlutur fjölómettaðra fitusýra lækkandi. Andoxunarefnið bútýl hýdroxýtólúen (BHT) varðveitti fitusýrusamsetningu rauðfrumna í 17 vikur við -20°C. Rauðfrumusýnin frá þunguðu konunum voru geymd við -20°C án viðbætts andoxunarefnis í allt að 20 vikur. Þegar niðurstöður fitusýrugreiningar gáfu til kynna að fjölómettaðar fitusýrur í hluta sýnanna hefðu peroxast, var leiðréttingaraðferð, sem algengt er að nota á orkuinntöku, þróuð til að leiðrétta fyrir peroxuninni. Enginn marktækur munur var á fitusýrusamsetningu þeirra rauðfrumusýna sem ekki voru talin peroxuð, og fitusýrusamsetningu allra rauðfrumusýnanna eftir leiðréttingu.
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að neysla ómega-3 fitusýra í byrjun meðgöngu tengist heilbrigðri aukningu í fæðingarþyngd og léttari fylgju. Há fæðingarþyngd og lág fylgjuþyngd hafa verið tengd minni hættu á ýmsum algengum sjúkdómum á fullorðinsárum, og ómega-3 fitusýrur gætu verið einn af þeim þáttum sem forrita langtímaheilsu hins vaxandi einstaklings. Það er því mikilvægt að konur hugi að neyslu sjávarfangs eða lýsis í byrjun meðgöngunnar. Þó hlutur DHA aukist í rauðfrumum eftir því sem líður á fyrri hluta meðgöngunnar óháð neyslu DHA, geta lífshættir haft sín áhrif, bæði á fitusýrusamsetningu frumuhimna og á útkomu meðgöngunnar. Reykingar auka peroxun í líkamanum og tengjast bæði lægri hlut DHA í rauðfrumum og minni fæðingarþyngd. Þó neysla á léttum bjór auki hugsanlega nýmyndun DHA í líkamanum, ættu þungaðar konur að forðast neyslu hans, því áfengisneysla, jafnvel í litlu magni, tengdist lægri fæðingarþyngd afkvæmis. Óþungaðar konur sem voru á getnaðarvarnarpillunni höfðu hærri hlut DHA í rauðfrumum en þær sem ekki voru á pillunni, og ýmislegt bendir til að östrógenið í pillunum hvetji nýmyndun DHA í líkamanum. Við þjálfun er hugsanlegt að nýmyndun og/eða innsetning DHA í himnur rauðfrumna aukist, og er þá líklega vörn líkamans gegn rauðfrumurofi sem er fylgifiskur þjálfunar.
Þær aðstæður geta skapast að ekki séu tök á að geyma rauðfrumusýni við kjörhitastig. Í því tilfelli er ekki óhætt að geyma sýnin nema fjórar vikur við -20°C áður en fitusýrugreining fer fram. Með því að bæta andoxunarefninu BHT út í sýnin fyrir frystingu má þó auka geymsluþolið verulega, eða í minnst 17 vikur. Vísindamenn sem út frá niðurstöðum fitusýrugagna telja hluta rauðfrumusýna hafa peroxast, geta notað heildarstyrk fitusýra í sýnunum til að leiðrétta fyrir peroxuninni. Það er sérlega gagnlegt ef ekki er unnt að notast við þann hluta rauðfrumusýnanna sem ekki er talinn peroxaður, án þess að niðurstöðurnar líði fyrir valskekkju.
Ómega-3 fitusýrur eru lífsnauðsynlegar fitusýrur sem við verðum að fá úr fæðunni. Neysla ómega-3 fitusýra er mjög mikilvæg barnshafandi konum og konum á barneignaraldri, þar sem staða þeirra í byrjun meðgöngu virðist tengjast útkomu meðgöngunnar. Góð útkoma meðgöngu hefur verið tengd betri heilsu afkvæmisins síðar á ævinni.